Bókasamvera
Fróðleikur um bókasamveru á ungbarnadeildum og listi bóka sem ég mæli sérstaklega með.
Gildi barnabókmennta
Það gagn sem börn hafa af barnabókmenntum með tilliti til málörvunar og bernskulæsis er ómetanlegt. Þegar er lesið reglulega fyrir börn eflir það orðaforða, málskilning, hljóðvitund og frásagnarhæfni ásamt því að hjálpa börnum að skilja að ritmál hefur merkingu sem er upphafið á ritmálsþroska (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2006).



Bækur á ungbarnadeildum
Eins til tveggja ára börn eru yfirleitt hrifin af bókum sem innihalda texta með endurtekningum og fyrirsjáanleika (Kupetz og Green, 1997). Bækurnar sem eru í boði inni á deild ættu að hafa skýra, litríka myndskreytingu með hlutum og athöfnum sem eru ungbörnum kunnuglegar og textinn ætti að innihalda einfalda frásögn eða sögu. Þegar ungbörn kynnast nýrri bók eru góðar líkur á að þau vilji fyrst bara skoða myndirnar en eftir því sem þau kynnast myndskreytingunni betur, getur lesandinn smám saman byrjað að bæta við lestur á textanum. Markmiðið með bókasamveru (e. book sharing) er að rannsaka bókina frekar en að lesa textann í bókinni (Otto, 2018, bls. 158).
Hugtakið bókasamvera finnst mér af þessum sökum eiga betur við frekar en lestrar- eða sögustund. Það er stund þar sem umönnunaraðili og barn eiga ánægjulega samveru, þar sem er flett í gegnum bók og spjallað um innihald hennar, hvort sem textinn er lesinn eða ekki. Slíkar samverustundir spila stórt hlutverk í að börn nái að mynda tengingu við bækur og eykur líkurnar á að þau verði bókelsk í framtíðinni (Strickland og Taylor, 1989, eins og vísað er til í Gotschall, 1995).
Hópastærð og tímasetning
Ég tala af reynslu þegar ég segi að það sé ekki vænlegt til árangurs að lesa fyrir mörg ungbörn í einu. Oft skapast ágreiningur á milli barnanna um það hvert þeirra fær að sitja í kjöltu kennarans eða hver fær að vera með andlitið sem næst bókinni, til að sjá myndirnar sem best. Þau munu vilja grípa í bókina, fletta í gegnum síðurnar, benda og babbla um það sem þau sjá. Þetta er eðlileg hegðun sem er mikilvægt að bregðast jákvætt við þar sem hún gefur vísbendingu um áhuga barnsins á því að taka þátt í bókasamverunni (Kupetz og Green, 1997).
Í bókasamveru þarf þess vegna að hafa eins fá ungbörn í hóp og kostur er á en einnig þarf að reyna koma því við að lesa fyrir aðeins eitt barn í einu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þau börn sem þurfa á aukinni málörvun að halda. Einnig er algengt að börn vilji endurtekið heyra sömu bækurnar en þannig læra þau heilmikið um lestur (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2006).
Mér þykir best að eiga bókasamveru með að hámarki fimm börnum í einu. Yfirleitt stilli ég upp 7-10 bókum (fer eftir fjölda barna), bunka af myndaspjöldum og bangsa eða dúkkur (leikefni sem skapar ekki mikið hljóðáreiti). Svo les ég sömu bókina nokkrum sinnum í röð án þess að gera kröfur til barnanna um að sitja og hlusta. Stundum býð ég þeim að setjast til skiptist í fangið á mér og velja sér sjálf bók til að skoða með mér. Ef önnur börn vilja vera með að þá er það að sjálfsögðu líka í boði en aðeins einn í einu fær að sitja í fanginu og fikta í bókinni (til að koma í veg fyrir ágreining á milli barnanna).
Tímasetning á bókasamveru skiptir máli. Þreytt, svöng eða pirruð börn eru ólíklegri til að njóta bókasamverunnar og mikilvægt er að meta viðbrögð barnanna hverju sinni. Ef barn verður órólegt, pirrað eða sýnir bókinni ekki áhuga er engin ástæða til að halda bókasamverunni áfram (Kupetz og Green, 1997; Otto, 2018, bls. 159). Mér finnst gott að nota morgnanna þegar börnin eru nýmætt í leikskólann eða eftir hvíldina.
Frjáls aðgangur að bókum
Mikilvægt er að ungbörn hafi alltaf frjálsan aðgang að bókum. Þær eiga að vera staðsettar á aðgengilegum hillum í augnhæð þeirra. Bókarkápurnar ættu helst að snúa fram þar sem þær hafa meira aðdráttarafl miðað við bókarkilina (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2006).
Það að börn skoði bækur á eigin forsendum er mun dýrmætara en sjálfar bækurnar.
Bækur má lagfæra eða endurnýja!
Ég mæli með að hafa bækurnar nálægt notalegum stað þar sem er hægt að láta fara vel um sig. Hægt er að útbúa lítin bókakrók með t.d. sófa, gólfmottu, pullur, kodda og teppi.
Bækur sem ég mæli með
Hér er listi bóka sem ég mæli sérstaklega með fyrir ungbörn.
Harðspjaldabækurnar valdi ég út frá eigin athugunum á hversu mikið þær virðast fanga og viðhalda athygli ólíkra barna ásamt því hversu endingargóðar þær eru.
Bækurnar sem eru ekki harðspjalda valdi ég út frá hversu vel mér finnst frásögnin höfða til ungbarna. Ungbörn eru yfirleitt hrifin af bókum með stuttri frásögn, endurtekningum og fyrirsjáanleika.
Á listanum eru einnig bækur sem mér finnst persónulega skemmtilegar að lesa og höfða á sama tíma til barnanna. Það er auðvitað smekksatriði hjá hverjum og einum hvaða bækur þeim þykir skemmtilegar. Þess vegna mæli ég með að allir finni sér barnabækur að þeirra skapi. Þegar lesandinn nýtur þess að lesa fyrir börnin auðgar það lestrarupplifunina (Kupetz og Green, 1997).
Harðspjaldabækur
Harðspjaldabækur eru hannaðar til að þola meðferð ungbarna á bókum (meðferð sem getur falið í sér að rífa, naga eða beygla) og ættu því að vera stærsti hluti þeirra bóka sem eru aðgengilegar börnunum.



Helstu tegundir harðspjaldabóka sem henta vel á ungbarnadeildum eru bendibækur, skynjunarbækur, flipabækur og myndabækur sem segja sögu.
Við lesturinn er gagnlegt að benda á þær myndir sem talað er um og gott er að leggja áherslu á látbragð, tilfinningar og leikræna tjáningu með því að herma eftir hljóðum. Eftir því sem þetta er gert oftar byrja börn gjarnan að herma eftir og benda á það sem spurt er um.
Hefðbundnar bækur
Sumar góðar bækur fyrir ungbörn eru ekki harðspjalda og því mæli ég með að hafa nokkrar slíkar bækur sýnilegar en úr hæð barnanna þannig að þau geti í það minnsta bent á þær bækur sem þau vilja skoða. Einnig getur verið sniðugt að taka saman nokkrar hefðbundnar bækur og skoða þær með að hámarki fjögur börn í einu til að gefa þeim tækifæri til að æfa sig í að fletta í gegnum og skoða þær.
Heimildir
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. (2006). Bók í hönd. Hrafnaþing: ársrit íslenskukennara
í KHÍ. 3, 19-33.
Gottschall, S.M. (1995). Hug a book: A program to nurture a young child’s love of books and reading. Young children, 50(4), 29-35.
Kupetz, B.N. og Green, E.J. (1997). Sharing books with infants and toddlers: facing the challenges. Young children, 52(2), 22-27.
Otto, B. (2018). Language development in early childhood education (5. útgáfa). Pearson.